OneRepublic - I LivedHljómsveitina OneRepublic þarf vart að kynna en þriðja platan hennar og jafnframt sú vinsælasta sem hljómsveitin hefur sent frá sér, Native kom út á síðasta ári og inniheldur hún meðal annars lögin Counting Stars og If I Lose MySelf sem slógu rækilega í gegn.

Nýjasta smáskífan af plötunni nefnist I Lived og vill hljómsveitin tileinka lagið fólkinu með slímseigjusjúkdóm eða Cystic Fibrosis sem er meðfæddur arfgengur sjúkdómur en hann stafar af því að útkirtlar, sem eru meðal annars svitakirtlar, slímkirtlar öndunarfæranna og briskirtillinn sem framleiðir meltingarhvata, starfa ekki eðlilega og hefur ennþá engin lækning fundist við þessum skelfilega sjúkdómi.

Í myndbandinu er skyggnst inn í líf hins fimmtán ára Bryan Warnecke sem er með sjúkdóminn og segir hann meðal annars frá því að tvisvar á dag þarf hann að taka allt að 50 töflur inn ásamt því að gera öndunaræfingar, en hann þakklátur fyrir lífið og lifir hverja sekúndu til fulls og er ekki hræddur við að taka stökkið og kljást við sársaukann sem fallið getur haft í för með sér.