Apple MusicThe Apple Worldwide Developers Conference eða WWDC eins og það er oft kallað er ráðstefna sem tæknirisinn Apple heldur árlega og eru margar nýjungar kynntar á ráðstefnunni á borð við uppfærslur á stýrikerfum, nýjar vörur og fleira, en ráðstefnan í ár fer fram dagana 8. til 12. júní í San Francisco.

Ein af þeim nýjungum sem kynntar hafa verið til leiks er ný tónlistarveita sem Apple kemur til með að opna þann 30. júní næstkomandi og heitir hún einfaldlega Apple Music og með henni vill Apple fara í samkeppni við Spotify og aðrar sambærilegar þjónustur.

Apple hefur ákveðið að bjóða öllum þriggja mánaða áskrift af Apple Music án endurgjalds en eftir það kostar þjónustan 9.90 dollara á mánuði sem gera um það bil 1.300,- krónur miðað við það gengi sem er í dag, en Apple mun einnig bjóða upp á sérstaka fjölskylduáskrift fyrir 14.90 dollara á mánuði þar sem sex notendur geta verið með sömu áskrift í einu.

Markmið Apple er að gera fólki kleyft að nálgast tónlist á auðveldari hátt þar sem tónlist veitir manni svo mikinn innblástur, en einnig verður útvarpstöðin Beats 1. sett á laggirnar á sama tíma en þar má nálgast viðtöl og fleira í bland við vinsælustu tónlistina hverju sinni.

Eins og áður sagði verður þjónustan aðgengileg í lok mánaðarins og fylgir hún iOS 8.4 uppfærslunni, nýjustu útgáfunni af iTunes og verður svo loks aðgengilegt fyrir Android notendur í haust.