Sönghópurinn Blár Ópal lenti í öðru sæti í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fór fram í Hörpu í gær. Strákarnir sungu lagið Stattu Upp en Ingólfur Þórarinsson og Axel Árnason sömdu bæði lag og texta. Sönghópinn skipa Agnar Birgir Gunnarsson, Franz Plóder Ottósson, Pétur Finnbogason og sjálfur Kristmundur Axel Kristmundsson en hann hefur komið víða við á Ný Tónlist og var m.a. dómari í Söngfuglinum.

„Við erum ákaflega þakklátir fyrir þann stuðning sem við fengum frá kjósendum, við breyttum atriðinu og settum mun meiri kraft í það og það hefur svo sannarlega skilað sér,“ sagði Kristmundur Axel í samtali við Ný Tónlist en hann vildi jafnframt óska Gretu Salóme og Jónsa til hamingju með sigurinn.

„Við látum ekkert stoppa okkur og höldum ótrauðir áfram, fólk má búast við meira efni frá okkur á næstu misserum.“

Ný Tónlist óskar strákunum til hamingju með þennan frábæra árangur og ætlar í samstarfi við ísbúðina Ísfólkið að bjóða sönghópnum ásamt höfundum lagsins í ísveislu.